Það er ekki nýtt að breytingar á sköttum séu gerðar að umræðuefni og eftir atvikum hluti af kjarasamningum með svokölluðu þríhliða samkomulagi ríkisvaldsins, stéttarfélaga og vinnuveitenda. Yfirleitt eru þessir samningar gerðir undir því yfirskyni að þeir eigi að jafna kjörin, færa hinum verst settu mestar bætur og treysta stöðu þeirra sem standa höllum fæti. Það er hins vegar aldrei spurt að leikslokum og því hverju slíkir samningar hafa skilað einkum þegar litið er til langs tíma. Þróun kjara og skatta síðustu áratugi bendir ekki til þess að þessi vinnubrögð hafi skilað miklum árangri fyrir láglaunafólk þann markhóp sem átti að hagnast mest. Launamunur í samfélaginu hefur vaxið og kjaraleg staða láglaunafólks hefur síst farið batnandi. Skattbyrði láglaunafólks hefur vaxið meira en hjá öðrum á sama tíma og hún hefur verið lækkuð hjá hinum best settu bæði með beinum aðgerðum og auknum möguleikum til skattahliðrunar. …
….
Viðræður fulltrúa launþegahreyfingarinnar við stjórnvöld um þessi atriði og önnur hagsmunamál eins og húsnæðismál eru af hinu góða og eru tækifæri til að koma sjónarmiðum og kröfum hennar á framfæri. Þær eiga hins vegar ekki að hafa að markmiði að gera samkomulag um tilteknar breytingar eða aðgerðir. Slíkt er hvorki í samræmi við lýðræðislega stöðu samtakanna né hagsmuni félagsmanna. Þau eiga hins vegar að krefjast þess að afstaða stjórnvalda í þessum málum liggi skýrt fyrir áður en gengið er til samninga við vinnuveitendur um meginefni kjarasamninga þannig að þau geti hagað kröfugerð sinni og aðgerðum í samræmi við þekktar og fyrirliggjandi forsendur í þessum málum.
Greinin í heild: Kjarasamningar, skattar og velferð