Auðlindarenta. Erindi á málþingi Pírata um umhverfismál 14. janúar 2016

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Á málþingi Pírata um umhverfismál 14. janúar sl. hélt ég stutt erindi um auðlindarentu. Auk mín fluttu þrír aðrir frummælendur stutt og fróðleg erindi um umhverfismál frá ýmsum sjónarhornum. Fundurinn tókst með ágætum, var upplýsandi og umræður ágætar.

Erindi mitt og efni þess var byggt á fyrirlestri sem ég hélt á umhverfisþingi um náttúruauðlindir Íslands sem haldið var 11. apríl 2015. Skyggnur þær sem ég notaði á málþingi Pírata má finna hér: Auðlindarenta. Erindi á málfundi Pírata. og erindið frá málþinginu er hér: Arður af náttúruauðlindum og hver nýtur hans?

Veiðigjöld 2015

Von mun á nýju frumvarpi um veiðigjöld. Má búast við að það verði framhald á þeim ferli að lækka veiðigjöldin og afnema þau sem tæki til að tryggja þjóðinni arð af fiskveiðiauðlindinni. Til stendur að afnema sérstaka veiðigjaldið sem byggt var á umframarði í greininni. Öll tengsl við auðlindaarðinn yrðu þannig afnumin og eftir stæði gjald til að jafna á greinina opinberum kostnaði við fiskveiðistjórnunarkerfið og öðrum kostnaði sem tengjast sjávarútvegi. Löng reynsla er fyrir því að slíkt gjald verður lágt enda ákveðið í samkomulagi við útgerðaraðalinn. Full ástæða er til þess að fylgjast vel með þessu máli. Talsmenn stjórnarflokkanna (eða að minnsta kosti annars þeirra) hafa haft uppi stór orð um að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar.  Nú reynir á það hvort slík orð eru innantómur frasi í munni þeirra eða hvort þau hafa raunverulegt inntak þess efnis að eign á auðlindum fylgi réttur til arðs af eigninni. Umframarður í sjávarútvegi, þ.e. hagnaður umfram allan tilkostnað að meðtöldum stofn- og fjármagnskostnaði hefur verið margir tugir milljarða á ári í mörg undanfarin ár. Þessi arður er eign þjóðarinnar. Greinar sem ég skrifaði á árunum 2013 og 2014 um fyrri skref á þessum ferli er að finna á vefsíðu minni indridih.com undir síðunni Auðlindir.