Á spjallþræði fésbókar var ég spurður um sjómannaafslátt og dagpeninga og svaraði því nokkrum orðum. Umræða um það mál í tengslum við kjaradeilu sjómanna og útgerðar hefur verið á miklum villigötum og sjáanlegt að ýmsir þ.á.m. talsmenn útgerðar og þingmenn hennar kunna takmörkuð skil á því sem þeir halda fram í þessum efnum. Í þeirri von að það geti verið einhverjum til skilningsauka birti ég hér svör mín við þeim spurningum sem að mér var beint þ.e. í fyrsta lagi um meint skattfrelsi dagpeninga og í öðru lagi um viðhorf til endurupptöku sjámannaafsláttar. Fylgja þau hér á eftir með eilítið breyttu orðalagi:
- Skattfrelsi dagpeninga
Sjómenn eru eins settir og aðrir launþegar m.t.t. dagpeninga. Engar sérreglur gilda um dagpeninga opinberra starfsmanna eða annarra launþega. Dagpeningar eins og aðrar greiðslur vinnuveitanda til launamanns eru skattskyldar tekjur. Ef launamaðurinn, sem á t.d. skv. kjarasamningum rétt á ókeypis gistingu og fæði, greiðir þann kostnað sjálfur en fær í staðinn frá launagreiðandanum (skattskylda) dagpeninga getur hann dregið kostnaðinn frá skattskyldum tekjum sínum, allt að fjárhæð dagpeninganna.
Til að einfalda framkvæmdina hafa skattyfirvöld sett reglur sem heimila þennan frádrátt að ákveðnu hámarki án þess að kostnaðarreikningar séu lagðir fram. Þær breyta þó ekki því grundvallaratriði að frádrátturinn er ekki heimill nema að launþeginn greiði sjálfur þann kostnað sem dagpeningarnir eiga að dekka, þ.e. gistingu og fæði.
2. Endurupptaka sjómannaafsláttar
Sjómannaafslátturinn var – á hvaða forsendum sem hann kann að hafa verið ákveðinn – ekkert annað en rekstrarstyrkur til útgerðar. Almennt gildir að atvinnurekendur greiða þann kostnað sem fellur til og er nauðsynlegur vegna rekstursins. Þar á meðal er allur launakostnaður, sem er mismikill eftir atvinnugreinum og starfsstéttum m.a. vegna ytri aðstæðna. Erfiði vinnunnar, mat á henni, aðstæður á vinnustað, fjarlægð frá heimili og margt fleira hefur áhrif og er til staðar í mismiklum mæli við flest störf, sjómennsku, vegagerð, langferðaakstur og fleira. Eru þessi atriði meðal þess sem tekist er á um í kjarasamningum. Engin hagfræðileg rök nema síður sé standa til þess að flytja hluta af þessum kostnaði af viðkomandi atvinnustarfsemi yfir á almenning í gegnum skattkerfið.
Svarið við beinni og óbeinni kröfu útgerðarinnar og þingmanna hennar um að taka upp styrki til hennar í einhverju formi (skattaafsláttur, óskattskyldir dagpeningar eða annað) þarf því að meta m.t.t. þess hvort rekstrarleg staða hennar sé slík að styrkur af almannafé sé nauðsynlegur og þá hvers vegna. Útgerðin nýtur nú þegar tuga milljarða styrks þjóðarinnar með gjaldlitlum aðgangi að náttúruauðlind þjóðarinnar og skilar honum sem umframhagnaði í vasa útgerðareigenda. Er þörf á að auka hann.
Á sama hátt má spyrja hvort kjör sjómann, sem notið hafa og eru vel komnir að auknum tekjum sem sala fiskafurða hefur skapað með gengisbreytingum frá hruni og verðþróun á markað, séu með þeim hætti að réttlætanlegt sé að ríkið grípi inn í og láti aðrir launþega greiða laun sjómanna umfram það sem útgerðin er tilbúin að borga.
Þangað til mat á þessu liggur fyrir verða sjómenn og útgerð að takast á um hvernig þeir skipta kökunni.