Sjómannaafsláttur og dagpeningar

Á spjallþræði fésbókar var ég spurður um sjómannaafslátt og dagpeninga og svaraði því nokkrum orðum. Umræða um það mál í tengslum við kjaradeilu sjómanna og útgerðar hefur verið á miklum villigötum og sjáanlegt að ýmsir þ.á.m. talsmenn útgerðar og þingmenn hennar kunna takmörkuð skil á því sem þeir halda fram í þessum efnum. Í þeirri von að það geti verið einhverjum til skilningsauka birti ég hér svör mín við þeim spurningum sem að mér var beint þ.e. í fyrsta lagi um meint skattfrelsi dagpeninga og í öðru lagi um viðhorf til endurupptöku sjámannaafsláttar. Fylgja þau hér á eftir með eilítið breyttu orðalagi:

  1. Skattfrelsi dagpeninga

Sjómenn eru eins settir og aðrir launþegar m.t.t. dagpeninga. Engar sérreglur gilda um dagpeninga opinberra starfsmanna eða annarra launþega. Dagpeningar eins og aðrar greiðslur vinnuveitanda til launamanns eru skattskyldar tekjur. Ef launamaðurinn, sem á t.d. skv. kjarasamningum rétt á ókeypis gistingu og fæði, greiðir þann kostnað sjálfur en fær í staðinn frá launagreiðandanum (skattskylda) dagpeninga getur hann dregið kostnaðinn frá skattskyldum tekjum sínum, allt að fjárhæð dagpeninganna.

Til að einfalda framkvæmdina hafa skattyfirvöld sett reglur sem heimila þennan frádrátt að ákveðnu hámarki án þess að kostnaðarreikningar séu lagðir fram. Þær breyta þó ekki því grundvallaratriði að frádrátturinn er ekki heimill nema að launþeginn greiði sjálfur þann kostnað sem dagpeningarnir eiga að dekka, þ.e. gistingu og fæði.

2. Endurupptaka sjómannaafsláttar

Sjómannaafslátturinn var – á hvaða forsendum sem hann kann að hafa verið ákveðinn – ekkert annað en rekstrarstyrkur til útgerðar. Almennt gildir að atvinnurekendur greiða þann kostnað sem fellur til og er nauðsynlegur vegna rekstursins. Þar á meðal er allur launakostnaður, sem er mismikill eftir atvinnugreinum og starfsstéttum m.a. vegna ytri aðstæðna. Erfiði vinnunnar, mat á henni, aðstæður á vinnustað, fjarlægð frá heimili og margt fleira hefur áhrif og er til staðar í mismiklum mæli við flest störf, sjómennsku, vegagerð, langferðaakstur og fleira. Eru þessi atriði meðal þess sem tekist er á um í kjarasamningum.  Engin hagfræðileg rök nema síður sé standa til þess að flytja hluta af þessum kostnaði af viðkomandi atvinnustarfsemi yfir á almenning í gegnum skattkerfið.

Svarið við beinni og óbeinni kröfu útgerðarinnar og þingmanna hennar um að taka upp styrki til hennar í einhverju formi (skattaafsláttur, óskattskyldir dagpeningar eða annað) þarf því að meta m.t.t. þess hvort rekstrarleg staða hennar sé slík að styrkur af almannafé sé nauðsynlegur og þá hvers vegna. Útgerðin nýtur nú þegar tuga milljarða styrks þjóðarinnar með gjaldlitlum aðgangi að náttúruauðlind þjóðarinnar og skilar honum sem umframhagnaði í vasa útgerðareigenda. Er þörf á að auka hann.

Á sama hátt má spyrja hvort kjör sjómann, sem notið hafa og eru vel komnir að auknum tekjum sem sala fiskafurða hefur skapað með gengisbreytingum frá hruni og verðþróun á markað, séu með þeim hætti að réttlætanlegt sé að ríkið grípi  inn í og láti aðrir launþega greiða laun sjómanna umfram það sem útgerðin er tilbúin að borga.

Þangað til mat á þessu liggur fyrir verða sjómenn og útgerð að takast á um hvernig þeir skipta kökunni.

Ríkisstjórnin og Panamaskjölin

Meginástæða til kosninga og myndunar nýrrar stjórnar nú var afhjúpun Panamaskjalanna sem sýndi að hundruð Íslandinga nýttu skattaskjól til að fela starfsemi sína, tekjur og eignir. Þar á meðal eru stjórnmálamenn, ráðherrar og borgarfulltrúar. Nýlegar fréttir frá skattyfirvöldum sýna að stór hluti þessara aðila nýtti sér skattaskjólin til að komast hjá því að greiða skatta til samfélagsins. Þeir gerðust brotlegir gagnvart skattalögum og fjöldi þeirra er grunaður um refsiverðar athafnir sem eru til skoðunar hjá saksóknara. Skattalagabrotin munu ekki verða opinber nema í þeim tilvikum að þau sæti refsimeðferð hjá dómstólum. Aðilar að öðrum skattundanskotsmálum eru verndaðir af trúnaðarskyldu skattyfirvalda.

 
Þeir sem nú sæta rannsókn skattyfirvalda hafa vafalítið haldið fram sakleysi sínu á einhverju stigi málsins og fullyrt að þeir hafi gert skattyfirvöldum grein fyrir öllu sem skiptir máli. Það er samt ekki þeirra heldur skattyfirvalda að leggja mat á hvort svo sé. Það á líka við um þá opinberu persónur sem uppvísar hafa orðið að skattaskjólsstarfsemi. Engin þeirra hefur sagt eða getað sýnt fram á að skattyfirvöldum hafi í reynd verið staðin skil á lögskyldum upplýsingum svo sem ársreikningum félaga sinna fyrir árin eftir 2010. Löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið hafa sýnt einkennilega linkind í þessum málum. Fyrir utan ábendingar og spurningar einstakra þingmanna hefur lítið gerst, enginni rannsókn á vegum þessara aðila hefur verið komið á og þær lagabætur sem gripið var til eru máttlitlar, bæta núverandi framkvæmd en nýtast á engan hátt til að stemma stigu við þessari starfsemi eða upplýsa um hana eins og hún er nú.

 
Það væru einkennileg skilaboð til kjósenda, m.a. þeirra þúsunda sem risu upp og mótmæltu veru Tortólaliðs í ríkisstjórn landsins, að sjá það leitt á ný til hásætis fyrir tilstilli þeirra sem kynna sig sem fulltrúa nýrra stjórnmála.

Úr álfheimum

Magnús Júlíusson, kynntur sem verkfræðingur og fyrrverandi formaður SUS, sendir mér kveðju góða í vefritinu Stundin fyrr í dag. Ég verð að ætla að hann hafi skrifað þetta af bestu samviskusemi en honum hefur samt tekist að fara með rangt mál í nokkum atriðum og sýnt takmarkaðan skilningi eða þekkingu í öðrum. Leyfi ég mér því að koma á framfæri nokkrum ábendingum til hans með grein að nafni Af jarðálfum og öðrum álfum. Ég vona að ég hafi ekki með þessum sakleysislegu ábendingum raskað ró Magnúsar eða trufli hann frá ástundun bókmennta. Ég hef tekið eftir því af umgengni minni við 3ja ára dótturson minn að undanförnu að lestur bóka sem hæfir þroska hans er mikilvægur aflgjafi framfara í hugsunar og rökvísi.

 

Staðhæfingar fjármálaráðherra og staðreyndir um skatta

Fjármálaráðherra virðist hafa komist að því við lestur greinar minnar Skattapólitík 1993 til 2015 um samanburð á skattlagninu tekna á árunum 1993 til 2015 að skattbyrði hefði vaxið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Athugasemdir ráðherra benda þó til þess að hann hafi ekki kynnt sér greinina nægilega vel. Með því hefði hann komist hjá að setja fram í þeim staðleysur einar.

Ráðherra heldur því fyrst fram að tekjuskattur hafi lækkað en viðurkennir í næsta orði að skatthlutfall (skattbyrði) hafi hækkað hjá flestum en fer ranglega með að þess hafi ekki verið getið í grein minni að það megi rekja til breytinga á tekjum. Því næst kemur sú staðhæfing að skattar hafi fyrir flesta lækkað um 3,3 prósentustig. Slík hefði þýtt að skattar hjá samköttuðum hefðu lækkað um ca 22 milljarða króna.

Staðreyndirnar eru að frá 2012 til 2015 hafa álagðir beinir skattar hækkað hjá flestum, m.a. vegna breytinga á tekjum. Afgerandi staðreynd er að hjá flestum (ca 80% samskattaðra) hafa þeir hækkað hlutfallslega meira en tekjur og það hefur leitt til hækkunar á skattbyrði sem nemur um 1,2  prósentum af tekjum að jafnaði. Hjá tekjuhæstu 20% samskattaðra hafa beinir skattar hins vegar hækkað hlutfallslega minna en tekjur þeirra og hefur það leitt til lækkunar á skattbyrði sem nemur um 8,5 prósentum af tekjum. Að hluta er það vegna brottfalls auðlegðarskatts og aukinna fjármagnstekna.

Hækkun skattbyrði hjá 80% samskattaðra svarar til þess að þeir greiði 7 milljörðum króna meira í skatt en verið hefði að óbreyttri skattbyrði en ekki 22 milljörðum króna minna eins og staðhæfing ráðherra felur í sér. Tekjuhæstu 20% samskattaðra greiða um 8 milljörðum króna minna í skatt en verið hefði að óbreyttri skattbyrði.

Skattapólitík 1993 til 2015

Ég birti í Stundinni sl. fimmtudag (20.10.2016) grein með þessu nafni þar sem ég rek það hvernig skattbyrði af beinum sköttum hefur breyst á síðustu áratugum og hvernig þær breytingar tengjast því hvaða flokkar fóru með landsstjórnina. Þar kemur fram að stjórnvöld geta rekið virka skattapólitík og náð markmiðum sem þau setja. Veldur hver á heldur.

Grein þessi er nú einnig að finna á heimasíðu minni indridih.com með tenglinum: Skattapólitík 1993 til 2015

“Úttekt á íslensku skattkerfi” – tillögur verkefnisstjórnar um skatta –

Út er komin skýrsla að nafni “Úttekt á íslensku skattkerfi”, rúmlega 100 litríkar blaðsíður, en spör á orð, upplýsingar og rök. Ég setti á heimasíðu mína nokkur orð um hvernig þessi „skýrsla“ kemur mér fyrir sjónir.

 

https://indridih.com/skattar-almennt/uttekt-a-islensku-skattkerfi-tillogur-verkefnisstjornar-um-skatta/

Af hverju að lækka ekki skatta?

 

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Í þann mund að við nokkrir félagar komum að sumarbústað í Borgarfirði í síðustu viku til þess að hefja spilamennsku vetrarins með hefðbundnum hætti fékk ég símtal frá mér ókunnum manni. Kristján kvaðst hann heita, föðurnafninu náði ég ekki. Eftir að hafa fullvissað sig um að hafa náð sambandi við fyrrverandi ríkisskattstjóra lagði hann fyrir mig spurningu: “Af hverju lýsir enginn stjórnmálamaður yfir því að það sé ekki hægt að lækka skatta?”

Ég átti von á rausi um varanleika skatta og þar sem ég hirði ekki um að svara möntrum hikaði ég við. Hann hélt þá áfram, sagðist lengi hafa fylgst með pólitík og þjóðfélagsþróun og hverjum manni ætti að vera ljóst að ekki væri hægt að lækka skatta á meðan fé vantaði til að halda uppi heilbrigðiskerfi og menntakerfi og velferð aldraðra og öryrkja væri í hættu. Samgöngukerfi landsins væri að grotna niður á sama tíma og álag á það eykst. Hann sagðist ekki geta ímyndað sér að nokkur stjórnmálamaður væri svo vitlaus að hann tryði því að á meðan svo er sé hægt að lækka skatta. Hann sagðist vilja sjá stjórnmálamenn stíga fram og viðurkenna þessa einföldu staðreynd og lýsa yfir því að þeir vilji breyta sköttum eins og til þarf til að byggja upp sómasamlegt samfélag.

Orð viðmælanda míns, sem rökstuddi mál sitt vel og ítarlegar en hér var rakið, bregður ljósi á hræsni og lýðskrum þeirra, sem nú boða lækkun skatta með annarri tungunni en lofa úrbótum og auknu fé á öllum sviðum með hinni. Við þurfum ekki loddara og fagurgala á Alþingi heldur raunsætt fólk sem veit að góð opinber þjónusta, velferð og uppbygging efnislegra og félagslegra innviða samfélagsins kostar mikið og veit einnig og er óhrætt við að segja það að skattar eru það verð sem við þurfum að greiða fyrir að lifa í siðuðu samfélagi.

Sem betur fer er landið ríkt og íslensk þjóð í færum til að greiða þetta verð ef auðlindir landsins eru nýttar í almannaþágu og samfélagslegum kostnaði er dreift á sanngjarnan hátt.

Ársreikningar Panama-félaga

 

Haustið er milt og snjór sést varla á fjöllum en fljótt virðist fenna yfir sporin sem Panamaskjölin afhjúpuðu á vormánuðum. Kannski er um að kenna vanmætti fjölmiðla til að fylgja málum eftir eða e.t.v. skorti á vitneskju um hvernig framvinda mála er þegar upp kemur efi um hvort rétt hafi verið staðið að málum. …

Ársreikningar Panama-félaga