Sala Arionbanka á hlutabréfum í Símanum vekur athygli og spurningu um hvort hún sé merki um endurkomu fjármálasukks fyrri ára þegar ráðamenn fjármálafyrirtækja notuðu aðstöðu sína til að moka fé í vasa sína og vildarvina sinna með ýmsum hætti. Gleymdir eru gjörningar sem leiddu til áfellisdóma enda almennt talið að græðgi slævi skjótt minni þeirra sem ráða ríkjum á fjármálamarkaði.
Vera má að eigendum Arionbanka þyki það góð fjárfesting að kaupa sér vild áhrifaaðila í íslensku viðskiptalífi því æ sér gjöf til gjalda. Af fréttum fjölmiðla má ráða að verðmæti gjafarinnar sé um 720 m.kr.
Það eru ekki bara vildarvinir Arions sem geta glaðst yfir góðri gjöf. Aumur ríkissjóður og fjárvana sveitarsjóðir mega eiga von á hressingu því ekki verður betur séð en að þessi gjöf, þ.e. mismunurinn á kaupverði og markaðsverði hlutabréfanna, sé tekjur hjá kaupendunum, sem skattleggja eigi sem almennar tekjur. Tekjuskattur af þeim reiknast væntanlega í flestum tilvikum eftir hæsta skattþrepi. Má því ætla að tekjur ríkis og sveitarfélaga af þessum gjöfum verði um 300 m.kr. Þær ættu að skila sér á næstunni því hinn örláti Arion skilar væntanlega staðgreiðslu af gjöfum sínum við fyrsta tækifæri eins og lög gera ráð fyrir.
Author: Indriði H Þorláksson
Arður af náttúruauðlindum, niðurlag
Á málþinginu 11. apríl sl. um náttúruauðlindir tókst ekki tímans vegna að fara yfir það efni sem var á síðustu glærunum sem sýndar voru og greinin á vefsíðu minni sem skrifuð var upp úr fyrirlestrinum náði ekki til þeirra. Vegna óska um skýringar á þeim glærum hef ég bætt við hana tveimur köflum sem fjalla um þessar glærur og hefjast á þessum undirkafla:
Hvað réði ferðinni?
Orkusala til stóriðjan skilar þjóðarbúinu litlu þrátt fyrir ábatasöm iðjuver og arður af fiskveiðiauðlindinni fellur til takmarkaðs hluta þjóðarinnar. Virðisauki í nýtingu auðlindanna er mikill en rennur ekki til eigenda þeirra. Spyrja af hverju svo sé þegar allt fyrirkomulag um þessa starfsemi er byggt á lögum og samningum gerðum af þeim sem fara með hagsmuni almennings. Tilgangurinn getur ekki hafi verið sá að ræna þjóðina réttmætu tilkalli til arðs af auðlindunum svo aðrar skýringar hljóta að vera til. …
Greinina með þessum viðbótum má lesa hér: Arður af náttúruauðlindum….
Andvana kanína
Í “útspili” ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga er greint frá fyrirhuguðum breytingum í skattamálum. Eins og búast mátti við var það venjuleg dúsa, þ.e. lækkun á tekjuskattsprósentu. Áhrif skattabreytinga eru margræð og oft önnur en látið í veðri vaka.
Í grein á vefsíðu minni með þessu nafni Andvana kanína er fjallað um þessar breytingar með þessum lokaorðum:
Undirrót óánægju í þjóðfélaginu er m.a. ójöfnuður í skiptingu eigna og tekna. Hlutur launatekna í landsframleiðslu hefur farið minnkandi síðustu ár. Hluti af þeirri þróun er sú staðreynd að vaxandi arði af auðlindum þjóðarinnar er beint fram hjá sameiginlegum sjóði landsmanna. Þetta er öllum ljóst. Stjórnvöld voru í þeirri stöðu að geta haft áhrif á gerð kjarasamninga með því að boða stefnubreytingu í þessu efni og ákveða aðgerðir á næstu misserum sem hefðu getað fært margfalt fleiri tugi milljarða í vasa ríkissjóðs og almennings en gert er með þeirri hungurlús sem nú er borin á borð. Með henni reyna stjórnvöld enn einu sinni að draga kanínu úr töfrahatti teboðsins en gæta þess ekki að hún er andvana.
Skrokkalda skrumskæld
Í Stundinni 21. maí sl. gerir blaðið pistil, Er Skrokkalda kjarabót?, sem ég birti á vef tímaritsins Herðubreið að umfjöllunarefni og mátti af henni ráða að ég væri að svara forsætisráðherra vegna tiltekinna ummæla hans. Hann var þó ekki nafngreindur í pistli mínum enda tilgangurinn að vekja athygli á viðhorfum og rök(leysum) en ekki á tilteknum persónum háum eða lágum.
Í grein Stundarinnar er einnig vakin athygli á að fjármálaráðherra fjalli um málflutning minn á fésbókarsíðu sinni. Er þakkarvert að leitast er við að andæfa honum með rökum og ekki síður fyrir það að ýmislegt sem dregið er fram styður ályktanir mínar. Bent er á að eignir Landsvirkjunar séu um 570 milljarðar króna og að arðgreiðslur stefni í að verða 10 til 20 milljarðar króna á ári. Þær verða þá á bilinu 1,8% til 3,5%. Það kemur heim og saman við það mat mitt að orkusalan skili “litlu ef nokkru meira en fjármagnskostnaði.” Þetta er lægri vextir en ríkið greiðir af lánsfé og lægri ávöxtun en t.d. það sem lífeyrirsjóðir telja viðunandi að ekki sé minnst á ávöxtun eiginfjár í atvinnurekstri almennt og ekki síst í hinum stóra auðlindageiranum, fiskveiðum. Tilvísun í skýrslu sem Samál keypti hjá Hagfræðistofnun breytir engu í þessu efni og efnistök hennar eru ekki til þess fallin að leggja mat á þjóðhagslegan ávinning af stóriðju.
Minni þökk kann ég fjármálaráðherra fyrir að afflytja efni pistils míns og gera mér upp skoðanir. Í einn stað segir hann mig halda því fram að þeir sem “vilja halda áfram að nýta sjálfbæra orku og gera úr henni verðmæti sýni veruleikafirringu og virðingarleysi fyrir rökum.” Það eru ekki mín orð. Í pistlinum kemur glöggt fram að orðum mínum var beint að fullyrðingum þess efnis að raforkusala til stóriðju skapi mikil verðmæti fyrir landsmenn og sé forsenda efnahagslegra framfara. Slíkt væri fjarri öllum veruleika og staðreyndum lítil virðing sýnd með þeim. Gagnrýni mín snýr því ekki að því að “nýta sjálfbæra orku” heldur því að allur arður af henni sé færður erlendum stóriðjufyrirtækjum á silfurfati.
Í annan stað gerir fjármálaráðherra mér upp þá afstöðu að ég vilji ekkert virkja og vilji bara láta vatnið “renna út í sjó.” Þá afstöðu hef ég þó aldrei látið í ljós í ræðu eða riti. Þvert á móti hef ég haldið því fram að orkukosti verði að meta með tilliti til allra þátta. Meta þurfi áhrif nýtingar á náttúru landsins og þann fórnarkostnað sem henni kann að fylgja en einnig þann hag sem af nýtingunni hlýst. Í því efni hef ég lagt áherslu á að meta eigi arðsemi nýtingar fyrir þjóðina og að auðlindaarðurinn sé ekki afhentur öðrum.
Tengill við: Er Skrokkalda kjarabót?
Er Skrokkalda kjarabót?
Ein dapurlegasta tilraun til að réttlæta náttúruofbeldi stóriðjusinna kom fram í vikunni þegar fullyrt var að frekari virkjanir væri forsenda þess að bæta megi kjör almennings. Þetta er dapurlegt að þeirri ástæðu að það sýnir veruleikafirringu stjórnvalda og virðingarleysi fyrir rökum og staðreyndum.
Áttatíu prósent raforkuframleiðslu í landinu sem er um 13.000 gígawattstundir eru seldar til stóriðju. Sú sala skilar Landsvirkjun litlu ef nokkru meira en fjármagnskostnaði. Söluverðmæti áls mun vera nokkuð nokkuð yfir 200 milljörðum króna. Þegar greiddur hefur verið hráefnakostnaður og annar rekstrarkostnaður en laun og fjármagnskostnaður standa eftir um 60 milljarðar króna. Um 17 milljarðar fara í laun og launatengd gjöld. Afgangurinn fer í fjármagnskostnað og hagnað eigenda sem laumað er óskattlögðum úr landi.
Þessir 17 milljarðar (og einhver smáviðbót vegna svokallaðra afleiddra starfa) eru eina hlutdeild landsins í þeim verðmætum sem stóriðjan skapar. Það er um 1% þjóðartekna. Hvað þarf margar Skrokkölduvirkjanir til að auka þjóðartekjur og bæta hag almennings með nýjum stóriðjuverum? Væri ekki ráðlegt að svara því áður en náttúruverðmætum er fórnað erlendum auðhringjum.
Í álverum landsins vinna 1500 til 2000 starfsmenn. Það eru um 1% vinnuafls í landinu, minna en árleg viðbót við það í meðalári.
Orkuauðlindir landsins að frátöldum jarðhita til upphitunar eru nánast þýðingarlausar fyrir íslenskt efnahagslíf. Það stafar af þeirri stefnu núverandi stjórnvalda að beina arðinum af þeim í vasa þeirra sem auðlindirnar nýta. Þessi stefna kemur víða fram. Móast er við að setja virkt auðlindaákvæði í stjórnarskrá, skattar á hagnað fyrirtækjanna voru lækkaðir, álverunum veitt trygging fyrir því að flytja hagnað skattfrjálsan úr landi, niðurfelling orkuskatts á álfyrirtæki gerð að forgangsmáli, veiðigjöld voru lækkuð og til stendur að gefa makrílkvótann. Það kemur því ekki á óvart að alþingismaður útgerðareigenda taki undir þessa fjarstæðu.
Meðan ekki er snúið frá þessari stefnu með raunhæfum hætti og sýnt fram á efnahagslega hagkvæmni þeirrar starfsemi sem nota á nýja orku eru engin rök fyrir frekari virkjunum á Íslandi.
Sjá hér endursögn erindis míns Arður af náttúruauðlindum á málþingi um náttúruauðlindir 11. apríl sl.
Kakan og kjörin A
Í tilefni af 1. maí og yfirstandandi kjaradeilum setti ég í greinasafnið á vefsíðu minni fyrri hluta greinar um villandi orðræðu um launamál, skiptingu þjóðartekna og misskiptingu auðs og tekna með þessum lokaorðum:
Til viðbótar við 50 – 70 milljarða króna aukna hlutdeild í skiptingu þjóðartekna hafi tekju- og eignahæstu hópar í þjóðfélaginu fengið ívilnanir hjá stjórnvöldum á síðustu árum sem hafa aukið ráðstöfunartekjur þeirra um varla minna en 40 – 50 milljarða króna. Aðrir í samfélaginu hafa þannig farið á mis við tekjur og tekið á sig auknar byrðar í formi lægri launa, hærri skattbyrði og lélegri samfélagsþjónustu en ella hefði verið. Það er ekki undrunarefni að ófriðlega horfi á vinnumarkaði. Sérhagsmunaöflin virðast staðföst í því að halda fengnum hlut og setja sig gegn breytingu sem rétt geta hlut almenings. Á vettvangi stjórnmálanna hefur verið slegið skjaldborg um þá sem fénýta auðlindir þjóðarinnar í eigin þágu og ívilnanir veittar hátekjuhópunum.
Grundvallarbreytinga er þörf
Það er ekki líklegt að þessari stöðu verði snúið til betri vegar við samningaborðið. Það þarf einnig meira til en hefðbundið krukk í tekjuskattskerfið eða kanínur úr töfrahatti húsnæðismálaráðherra. Það sem þarf eru pólitísk úrræði sem taka á undirliggjandi þróun til aukins ójafnaðar, stöðvar hana og gera það að verkum að almenningur í landinu fái notið þeirra verðmæta sem verða til hér á landi, beint í starfskjörum sínum eða með því að þau standi undir sameiginlegum útgjöldum.
Greinin er hér: Kakan og kjörin A
Hækkar nú hagur Strympu
Þau ánægjulegu tíðindi berast frá Hafró að ástand mikilvægra fiskistofna hafi batnað og búast megi við aukningu aflaheimilda á komandi árum. Í ljósi umræðna á síðustu vikum voru viðbrögð hjá hinu nýja LÍÚ þau að bíða með það að fagna fiski í hendi en benda á að þetta boði gott fyrir þjóðarhag þegar til framtíðar er litið. En hver er þessi þjóð sem hefur bættan hag fyrir augum?
Ímyndum okkur að heildarveiði megi auka um 4%. Það eru u.þ.b. 20.000 tonn af þorski. Úflutningsverðmæti myndi að öðru óbreyttu hækka um ca. 10 milljaðra króna. Þegar greiddur hefur verið beinn kostnaður annar en laun standa eftir a.m.k. 6 milljaðra króna. Þar af fara um 3 milljaðra króna í laun sjómanna og annarra sem vinna við veiðar og vinnslu (eða stjórna sjávarútvegsfyrirtækjum). Þeir 3 milljaðra króna sem eftir eru skiptast á milli eigenda sjávarútvegsfyrirtækja sem fá um 2,7 milljaðra króna og þjóðarinnar sem fær 0,3 milljaðra króna þ.e. ef ekki verður búið að lækka veiðigjöldin enn meira.
Um rök fyrir þessum tölum vísa ég á nýlegar greinar á vefsíðu minni Veiðigjöld 2015. Fyrsti hluti og Veiðigjöld 2015. Annar hluti, sem einnig birtust í vefritinu herdubreid.is
Þjóðareign – málþing um auðlindir Íslands
Á málþingi með þessu nafni á Hótel Sögu 11. apríl flutti ég stutt erindi undir heitinu „Arður af náttúruauðlindum – hver nýtur hans?“
Skjal (pdf) með slæðum sem ég byggði erindið á má finna á vefsíðu minni IndriðiH undir nafninu: Arður af náttúruauðlindum …
Veiðigjöld 2015
Von mun á nýju frumvarpi um veiðigjöld. Má búast við að það verði framhald á þeim ferli að lækka veiðigjöldin og afnema þau sem tæki til að tryggja þjóðinni arð af fiskveiðiauðlindinni. Til stendur að afnema sérstaka veiðigjaldið sem byggt var á umframarði í greininni. Öll tengsl við auðlindaarðinn yrðu þannig afnumin og eftir stæði gjald til að jafna á greinina opinberum kostnaði við fiskveiðistjórnunarkerfið og öðrum kostnaði sem tengjast sjávarútvegi. Löng reynsla er fyrir því að slíkt gjald verður lágt enda ákveðið í samkomulagi við útgerðaraðalinn. Full ástæða er til þess að fylgjast vel með þessu máli. Talsmenn stjórnarflokkanna (eða að minnsta kosti annars þeirra) hafa haft uppi stór orð um að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar. Nú reynir á það hvort slík orð eru innantómur frasi í munni þeirra eða hvort þau hafa raunverulegt inntak þess efnis að eign á auðlindum fylgi réttur til arðs af eigninni. Umframarður í sjávarútvegi, þ.e. hagnaður umfram allan tilkostnað að meðtöldum stofn- og fjármagnskostnaði hefur verið margir tugir milljarða á ári í mörg undanfarin ár. Þessi arður er eign þjóðarinnar. Greinar sem ég skrifaði á árunum 2013 og 2014 um fyrri skref á þessum ferli er að finna á vefsíðu minni indridih.com undir síðunni Auðlindir.
Skattagrið og glæpahagfræði
Það tók tíma að ákveða viðbrögð við tilboði uppljóstrara um kaup á upplýsingum um hugsanleg skattsvik íslenskra skattborgara. Þegar ljóst var að ekki yrði undan kaupunum vikist varð að ráði að undirbúa löggjöf að fyrirmynd annarra landa sem linað gæti kárínur þeirra sem upp kemst um og þeir um leið hvattir til iðrunar. Hópur var settur til starfa 3. desember sl. skilaði hann tillögum 6. mars. Má telja það vel að verki staðið.
Tillögur hópsins virðast við fyrstu sýn ekki slæm lagatæknileg lausn. Skattsvikarar taka fé ófrjálsri hendi og það er ekki einfalt að uppfylla kröfu um jafnræði gagnvart þeim sem uppvísir hafa orðið að fjárdrætti eða þjófnaði með öðrum hætti. Markmiðið er um leið að bæta almannahag með betri skatthlítni og auknu jafnræði í skattframkvæmd í framtíðinni. Tillögur hópsins eru líklega hugsaðar sem leið að því marki í umhverfi þar sem viðurlög við ólíkum tegundum fjársvika eru þegar með mismunandi hætti. Þess þarf þó að gæta að hjá skattyfirvöldum og úrskurðaraðilum um skattamál hafa verið, eru og verða til úrlausnar mál þar sem beitt er viðurlagaákvæðum skattalaganna án tilslakana. Skattagrið til handa þeim sem iðrast eða óttast refsingu geta sett þá framkvæmd í uppnám ef ekki er farið fram af gát. Halda áfram að lesa „Skattagrið og glæpahagfræði“