Indriði H. Þorláksson

Forsíða » Auðlindir (Síða 2)

Flokkaskipt greinasafn: Auðlindir

Er Skrokkalda kjarabót?

Ein dapurlegasta tilraun til að réttlæta náttúruofbeldi stóriðjusinna kom fram í vikunni þegar fullyrt var að frekari virkjanir væri forsenda þess að bæta megi kjör almennings. Þetta er dapurlegt að þeirri ástæðu að það sýnir veruleikafirringu stjórnvalda og virðingarleysi fyrir rökum og staðreyndum.

Áttatíu prósent raforkuframleiðslu í landinu sem er um 13.000 gígawattstundir eru seldar til stóriðju. Sú sala skilar Landsvirkjun litlu ef nokkru meira en fjármagnskostnaði. Söluverðmæti áls mun vera nokkuð nokkuð yfir 200 milljörðum króna. Þegar greiddur hefur verið hráefnakostnaður og annar rekstrarkostnaður en laun og fjármagnskostnaður standa eftir um 60 milljarðar króna. Um 17 milljarðar fara í laun og launatengd gjöld. Afgangurinn fer í fjármagnskostnað og hagnað eigenda sem laumað er óskattlögðum úr landi.

Þessir 17 milljarðar (og einhver smáviðbót vegna svokallaðra afleiddra starfa) eru eina hlutdeild landsins í þeim verðmætum sem stóriðjan skapar. Það er um 1% þjóðartekna. Hvað þarf margar Skrokkölduvirkjanir til að auka þjóðartekjur og bæta hag almennings með nýjum stóriðjuverum? Væri ekki ráðlegt að svara því áður en náttúruverðmætum er fórnað erlendum auðhringjum.

Í álverum landsins vinna 1500 til 2000 starfsmenn. Það eru um 1% vinnuafls í landinu, minna en árleg viðbót við það í meðalári.

Orkuauðlindir landsins að frátöldum jarðhita til upphitunar eru nánast þýðingarlausar fyrir íslenskt efnahagslíf. Það stafar af þeirri stefnu núverandi stjórnvalda að beina arðinum af þeim í vasa þeirra sem auðlindirnar nýta. Þessi stefna kemur víða fram. Móast er við að setja virkt auðlindaákvæði í stjórnarskrá, skattar á hagnað fyrirtækjanna voru lækkaðir, álverunum veitt trygging fyrir því að flytja hagnað skattfrjálsan úr landi, niðurfelling orkuskatts á álfyrirtæki gerð að forgangsmáli, veiðigjöld voru lækkuð og til stendur að gefa makrílkvótann. Það kemur því ekki á óvart að alþingismaður útgerðareigenda taki undir þessa fjarstæðu.

Meðan ekki er snúið frá þessari stefnu með raunhæfum hætti og sýnt fram á efnahagslega hagkvæmni þeirrar starfsemi sem nota á nýja orku eru engin rök fyrir frekari virkjunum á Íslandi.

Sjá hér endursögn erindis míns Arður af náttúruauðlindum á málþingi um náttúruauðlindir 11. apríl sl.

Kakan og kjörin A

Í tilefni af 1. maí og yfirstandandi kjaradeilum setti ég í greinasafnið á vefsíðu minni fyrri hluta greinar um villandi orðræðu um launamál, skiptingu þjóðartekna og misskiptingu auðs og tekna með þessum lokaorðum:

Til viðbótar við 50 – 70 milljarða króna aukna hlutdeild í skiptingu þjóðartekna hafi tekju- og eignahæstu hópar í þjóðfélaginu fengið ívilnanir hjá stjórnvöldum á síðustu árum sem hafa aukið ráðstöfunartekjur þeirra um varla minna en 40 – 50 milljarða króna. Aðrir í samfélaginu hafa þannig farið á mis við tekjur og tekið á sig auknar byrðar í formi lægri launa, hærri skattbyrði og lélegri samfélagsþjónustu en ella hefði verið. Það er ekki undrunarefni að ófriðlega horfi á vinnumarkaði. Sérhagsmunaöflin virðast staðföst í því að halda fengnum hlut og setja sig gegn breytingu sem rétt geta hlut almenings. Á vettvangi stjórnmálanna hefur verið slegið skjaldborg um þá sem fénýta auðlindir þjóðarinnar í eigin þágu og ívilnanir veittar hátekjuhópunum.

Grundvallarbreytinga er þörf
Það er ekki líklegt að þessari stöðu verði snúið til betri vegar við samningaborðið. Það þarf einnig meira til en hefðbundið krukk í tekjuskattskerfið eða kanínur úr töfrahatti húsnæðismálaráðherra. Það sem þarf eru pólitísk úrræði sem taka á undirliggjandi þróun til aukins ójafnaðar, stöðvar hana og gera það að verkum að almenningur í landinu fái notið þeirra verðmæta sem verða til hér á landi, beint í starfskjörum sínum eða með því að þau standi undir sameiginlegum útgjöldum.

Greinin er hér: Kakan og kjörin A

Hækkar nú hagur Strympu

Þau ánægjulegu tíðindi berast frá Hafró að ástand mikilvægra fiskistofna hafi batnað og búast megi við aukningu aflaheimilda á komandi árum. Í ljósi umræðna á síðustu vikum voru viðbrögð hjá hinu nýja LÍÚ þau að bíða með það að fagna fiski í hendi en benda á að þetta boði gott fyrir þjóðarhag þegar til framtíðar er litið.  En hver er þessi þjóð sem hefur bættan hag fyrir augum?

Ímyndum okkur að heildarveiði megi auka um 4%. Það eru u.þ.b. 20.000 tonn af þorski.  Úflutningsverðmæti myndi að öðru óbreyttu hækka um ca. 10 milljaðra króna. Þegar greiddur hefur verið beinn kostnaður annar en laun standa eftir a.m.k. 6 milljaðra króna. Þar af fara um 3 milljaðra króna í laun sjómanna og annarra sem vinna við veiðar og vinnslu (eða stjórna sjávarútvegsfyrirtækjum). Þeir 3 milljaðra króna sem eftir eru skiptast á milli eigenda sjávarútvegsfyrirtækja sem fá um 2,7 milljaðra króna og þjóðarinnar sem fær 0,3 milljaðra króna þ.e. ef ekki verður búið að lækka veiðigjöldin enn meira.

Um rök fyrir þessum tölum vísa ég á nýlegar greinar á vefsíðu minni Veiðigjöld 2015. Fyrsti hluti og Veiðigjöld 2015. Annar hluti, sem einnig birtust í vefritinu herdubreid.is

Þjóðareign – málþing um auðlindir Íslands

 

Á málþingi með þessu nafni á Hótel Sögu 11. apríl flutti ég stutt erindi undir heitinu „Arður af náttúruauðlindum – hver nýtur hans?“

Skjal (pdf) með slæðum sem ég byggði erindið á má finna á vefsíðu minni IndriðiH undir nafninu: Arður af náttúruauðlindum …

Veiðigjöld 2015

Von mun á nýju frumvarpi um veiðigjöld. Má búast við að það verði framhald á þeim ferli að lækka veiðigjöldin og afnema þau sem tæki til að tryggja þjóðinni arð af fiskveiðiauðlindinni. Til stendur að afnema sérstaka veiðigjaldið sem byggt var á umframarði í greininni. Öll tengsl við auðlindaarðinn yrðu þannig afnumin og eftir stæði gjald til að jafna á greinina opinberum kostnaði við fiskveiðistjórnunarkerfið og öðrum kostnaði sem tengjast sjávarútvegi. Löng reynsla er fyrir því að slíkt gjald verður lágt enda ákveðið í samkomulagi við útgerðaraðalinn. Full ástæða er til þess að fylgjast vel með þessu máli. Talsmenn stjórnarflokkanna (eða að minnsta kosti annars þeirra) hafa haft uppi stór orð um að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar.  Nú reynir á það hvort slík orð eru innantómur frasi í munni þeirra eða hvort þau hafa raunverulegt inntak þess efnis að eign á auðlindum fylgi réttur til arðs af eigninni. Umframarður í sjávarútvegi, þ.e. hagnaður umfram allan tilkostnað að meðtöldum stofn- og fjármagnskostnaði hefur verið margir tugir milljarða á ári í mörg undanfarin ár. Þessi arður er eign þjóðarinnar. Greinar sem ég skrifaði á árunum 2013 og 2014 um fyrri skref á þessum ferli er að finna á vefsíðu minni indridih.com undir síðunni Auðlindir.

Þjóðareign í orði eða á borði

Ekkifrétt vikunnar var að margboðað frumvarp um fiskveiðistjórnun yrði ekki lagt fram. Full eindrægni stjórnarflokkanna væri um að fiskveiðiauðlindin sé þjóðareign. Ekki sé heldur ágreiningur milli þeirra um að núverandi kvótahafar skuli stinga í vasann öllu arðinum af auðlindinni en skoðanamunur á því hversu vel falin sú niðurstaða verður.

Hvað þýðir orðið “þjóðareign” hjá þeim sem svona tala. Er þetta nokkuð annað en orðhengilsháttur? Hugtakið “þjóðareign” er orðið að gildishlöðnu en merkingarlausu lýðskrumstæki sem er vel til þess fallið að hylja það að hinn eiginlegi eignarréttur, þ.e. réttur til umráða, nýtingar og arðs er ekki hjá þjóðinni heldur hjá núverandi kvótahöfum. (meira…)

Álver og sjávarútvegur

Vegna tengsla alþjóðlegra fyrirtækja við skattaskjól hefur á ný kviknað umræða um áliðnað á Íslandi. Af því tilefni hef ég sett á vefsvæði mitt smágrein, sem ég birti á eyjan.is 16. apríl 2013  þar sem ég fjalla um þjóðhagslega þýðingu sjávarútvegs og áliðnaðar. Tilefnið þá var m.a. auglýsingaherferð álfyrirtækja sem birtu um þetta leyti heilsíðuauglýsingar í dagblöðum um eigið ágæti. Í niðurstöðum greinarinnar segir:

„Þýðing áliðnaðar fyrir íslenskt efnahagslíf er einungis brot af þýðingu sjávarútvegs hvort sem litið er á framlag til þjóðarframleiðslu eða á vinnumarkað. Álverin nota um 75% af þeirri raforku sem framleidd er í landinu en leggja innan við 2% að mörkum hvort sem litið er á þjóðartekjur eða atvinnusköpun. Það er fásinna að halda því fram að unnt sé að byggja upp atvinnustarfsemi í landinu með fleiri álverum.“

Greinina má finna hér:   https://indridith.wordpress.com/audlindir-og-storidja-2/alver-og-sjavarutvegur/