Þunn eiginfjármögnun – eða þagað þunnu hljóði í 12 ár-

 

tilberi

Setti inn á heimasíðu mína smá grein:

Þunn eiginfjármögnun – eða þagað þunnu hljóði í 12 ár

„……….. Með framangreint í huga er ekki undarlegt að stjórnvöld, sem virðast hafa haft þá afstöðu að skattasniðganga sé hluti eðlilegra viðskipthátta og stuðlað að henni, hafi þagað þunnu hljóði í þau 12 ár sem liðin eru síðan tillögur skattsvikanefndarinnar komu fram. Það væri fróðlegt að sjá hvað sú þögn hefur kostað?“

Auðmannagæska

Ekki er ástæða til að vanþakka vilja Mosfellinga til að lina þjáningar auðugra útlendinga. Líklegt er að bláeygð bæjarstjórn þeirra hafi verið blinduð af því glópagulli sem erlend fjárfesting hefur jafnan verið húðuð og talið að hún væri í leiðinni að efla íslenskt efnahagslíf. En ætli hinum erlendu fjárfestum hafi með staðarvalinu gengið það helst til að líkna þjáðum og efla íslenskan hag?

Efnahagsleg áhrif af atvinnustarfsemi ráðast af þeim virðisauka sem hún skapar og hvert hann fer, ekki síst hvort hann verður eftir í landinu eða fer í vasa erlendra aðila. Virðisaukinn eru allar tekjur af starfseminni, laun, fjármagnstekjur svo sem vextir og og hagnaður og eftir atvikum renta. Skattar af þessum tekjum eru sá þáttur virðisaukans sem rennur til samfélagsins. Í tilviki því sem um ræðir er þessi mynd fremur einföld. Innlend aðföng, önnur en vinnnuafl að hluta, eru óveruleg og rekstrarkostnaður að mestu laun og fjármagnskostnaður vegna húsnæðis og tæjabúnaðar. En hvert renna tekjurnar.

Fjármagnstekjur. Sjúkrahúsið á að byggja fyrir erlent lánsfé og hefur fjárfestum verið lofað góðri ávöxtun. Fjárfestarnir munu vera hollenskir og enginn skattur er lagður á vaxtagreiðslur þangað. Hvorki vaxtatekjur né skattur af þeim verða eftir í landinu.

Hagnaður. Verði hagnaður af starfseminni hér á landi ætti að leggja á hann með 20% skatt, sem er einn lægsti skattur á fyrirtæki, sem fyrirfinnst á Vesturlöndum. Líklegt er þó að skattalegum hagnaði verði eytt á pappírunum með yfirskuldsetningu gagnvart tengdum aðilum en af örlæti leyfum við slíkt fárra þjóða og er m.a. notað ótæpilega af álverum, sem fengu tryggingu fyrir því með samningunum um Reyðarál 2005. Óvarlegt er að reikna með að nokkur tekjuskattur af rekstri heilsuspítalans verði eftir í landinu.

Arður. Þrátt fyrir skattalegt tap á pappírunum kunna forsendur vera til að greiða hluthöfum arð. Arðurinn rennur til hinna erlendu hluthafa og ekki verður tekinn skattur af honum vegna ákvæða í tvísköttunarsamningi við Holland. Hvorki arður né skattur af honum verður eftir í landinu.

Laun innlends starfsfólks. Gera má ráð fyrir að nokkur hluti starfsfólks einkum í lægra launuðum þjónustustörfum og að einhverju leyti í hjúkrunarstörfum verði fólk með fasta búsetu hér á landi. Laun og tekjuskattur af fyrrnefnda hópnum skilar sér að vísu í vasa íslenskra aðila en vafasamt er hvort þar sé um að ræða viðbót við landsframleiðslu. Við hátt atvinnustig eins og nú er og verið hefur lengst af hér á landi hefur ný starfsemi ruðningsáhrif, þ.e. tekur fólk úr öðrum störfum og er þá um óverulega aukningu heildartekna að ræða.

Laun erlends starfsfólks. Líklegt er að læknar og aðrir sérfræðingar og hluti starfsfólks í séhæfðum verkefnum verði erlendir borgarar sem koma til styttri dvalar hér á landi. Hluti þeirra mun líklega dvelja hér minna en 183 daga á ári, hafa takmörkuð efnahagsleg umsvif og ekki greiða skatt hér á landi. Fyrir hinn hlutann myndi frumvarp sem fjármálaráðherra lagði fram á vorþingi 2016 koma að gagni og leiða til þess að að útsvar þeirra og tekjuskattur yrði 30 til 35% lægri en ella. Hætt er við að lítið yrði eftir af tekjum þessum í landinu auk þess ójafnræðis sem þessi reglu felur í sér.

Jákvæð efnahagsleg áhrif af rekstri heilsuspítala með þeim hætti sem lagt er upp með í Mossfellssveit yrðu óveruleg fyrir Ísland. Að vísu myndi sveitarfélagið fá í sinn hluta fasteignagjöld og ríkið fengi tryggingargjald en hafa þarf í huga að fyrirtækið og starfsmenn þess ættu rétt á opinberri þjónustu í sama mæli og aðrir sem hér búa og að komið hefur fram að gert sé ráð fyrir enn frekari ívilnunum sem skerða myndi þær tekjur. Tekjur opinberra aðila yrðu því litlar.

Kann það að vera að auðmannagæskan hafi ekki ein ráðið staðarvalinu heldur hafi Ísland haft betur í samkeppni við Tortóla?

Heiðursborgarar á Tortóla

Meinsemd skattaskjóla er alþekkt og ætti að vera flestum kunn eftir afhjúpun Panama-skjalanna. Skattaskjólin eru:

  • Vettvangur skattsvika af stærðargráðu sem er óskiljanleg fyrir venjulegt fólk.
  • Vettvangur þeirra sem fría sig frá skyldum við það samfélag sem hefur fóstrað þá og alið.
  • Vettvangur þar sem ágóði af hvers kyns glæpastarfsemi og öðru illa fengnu fé er blandað í leynisjóði stórfyrirtækja og auðkýfinga og hvítþvegið.
  • Vettvangur sem alþjóðafyrirtæki nota til að færa hagnað sinn út úr þeim löndum þar sem hann varð til og ætti að skattleggjast.
  • Vettvangur  þar sem leynd verndar þau viðskipti sem ekki þola dagsins ljós.
  • Vettvangur sem gerir sumum mögulegt að losna undan þeim lögum sem gilda fyrir aðra í heimalandinu og flestum siðuðum ríkjum.

Reynslan af alþjóðlegum fjármálabólum og hruni hefur sýnt að skattaskjólin eru óheillavaldar. Þau eru meinvarp í alþjóðahagkerfinu, ógnun við fjárhag einstakra ríkja og gróðrarstía spillingar. Hrunið til viðbótar við fyrri reynslu leiddi til þess að fjölþjóðasamtök settu stóreflda baráttu gegn skattaskjólum á stefnuskrá sína með það að markmiði að útrýma þeim. Afhjúpun Panama-skjalanna hefur gefið þeirri baráttu aukin byr í seglin. Krafa almennings í flestum ríkjum og yfirlýsingar ráðamanna í þeim er skýr stuðningur við þessa stefnu.

Ísland er aðili að sumum þessara stofnana t.d. OECD, sem staðið hefur framalega í baráttunni. Það kemur því verulega á óvart að fyrstu yfirlýsingar endurnýttra ráðamanna eftir að fyrri leiðtogi þeirra verður að víkja vegna starfsemi í skattaskjóli skuli vera þess efnis að það sé í lagi að eiga fé í skattaskjóli. Forystumenn flestra ríkja krefjast þess nú að nákvæm rannsókn fari fram á þeim sem uppvísir hafa orðið að leynibraski. Íslenskir valdhafar telja að kattarþvottur með óljósum og ósönnuðum yfirlýsingum sé nægilegur til að áfram verði haldið að blekkja almenning og skaða þjóðina.

Það er ekki ónýtt fyrir skattaskjólin og viðskiptafélaga þeirra að fá þannig siðferðisvottorð frá ríki sem státar sig (með réttu eða röngu) af því að vera elsta lýðræðisríki heims og (líka með réttu eða röngu) að vera meðal þeirra ríkja þar sem mannréttindi, jafnrétti og velferð allra þegna samfélagsins eru grundvallarmál. Þetta siðferðisvottorð ráðmanna er enn furðulegra í ljósi þess:

  • Að Ísland verður fyrir tilstuðlan skattaskjóla árlega af skatttekjum sem að lágmarki eru 30 – 50 milljarðar króna.
  • Að tugum milljarða af hagnaði af nýtingu á orkuauðlindum landsins er komið undan skattlagningu með atbeina skattaskjóla.
  • Að verulegur hluti arðs af fiskveiðiauðlindinni kann einnig að vera vistaður í skattaskjólum.
  • Að í aðdraganda hrunsins voru hundruðir milljarða króna sogaðir út úr íslenska hagkerfinu inn í einkahlutafélög Íslendinga í skattaskjólum.
  • Að hluti Íslendinga, sem hefur til þess aðstöðu, getu og geð, segir sig undan íslenskum lögum og athafnar sig utan þess réttarkerfis sem vestræn samfélög hafa sett atvinnurekstri.
  • Að hluti Íslendinga hefur með því að vista eigur sínar í skattaskjólum komið sér undan afleiðingum hrunsins og jafnvel hagnast á óförum annarra.

Það undarlegasta er þó að þeir sem svona tala eru valdir til æðstu metorða á Íslandi í stað þess að vera gerðir að heiðursborgurum á Tortóla.

Paradísarmál

Cane_Garden_Bay,_TortolaFjárvarsla í paradís varð að stórmáli í fjölmiðlum og á Alþingi þar sem sótt er fast og fimlega varist. Í slíkum átökum er nauðsynlegt að gæta hófs. Í því hlýtur Kastljós að vera til fyrirmyndar. Það kallaði í gær á skattalögfræðing til að tjá sig um málið og til var fenginn maður, sem er þessum hnútum kunnugur hafandi  á gullárunum starfaði hjá Landsbanka Íslands m.a. að málefnum aflandsfélaga. Af hógværð var þeirrar starfsreynslu þó að engu getið og virðingin slík að engin gagnrýnin spurning var borin upp. Að öðru leyti var þátturinn helgaður ágætum manni, svissneskum, sem hafði m.a. unnið sér það til ágætis að vera í forsvari fyrir EFTA dómstólsinn við úrlausn máls sem í ljósi sögunnar hefur óverulega þýðingu. Það er lofsvert að stíga létt til jarðar, það truflar ekki.

Fjárvarsla í paradísum er ekki ný af nálinni. Hún blómstraði á árunum fyrir hrun og tók ég þá saman upplýsingar, sem ég birti í greinum á blog.is í febrúar og mars 2008 og sjá má með tenglunum:

Eignarhald á íslenskum fyrirtækjum …

Eignarhald á kauphallarfélögum

Útrás og innrás

Leyfarnar af skyndigróða þessa tíma hafa sjáanlega legið þar og dafnað eigendum sínum til ánægju og yndisauka eins og grein Inga Freys Vilhjálmssonar í Stundinni í dag ber með sér.

 

 

Engin skattsvik (Enn um örlátan söngvara)

William-Adolphe_Bouguereau_(1825-1905)_-_Arion_on_a_Sea_Horse_(1855)Mér hefur borist til eyrna að pistill sem ég ritaði hér árla dags hafi verið túlkaður á þann veg að framin hafi verið skattsvik. Sú túlkun er fjarri öllu sanni. Ekkert í honum er þess efnis og ekkert tilefni til að ætla að skattalög hafi verið brotin. Skattskil kaupenda vegna tekna á þessu ári og þar með þessara viðskipta fer ekki fram fyrr en á næsta ári. Þegar af þeirri ástæðu er ómöguleiki á að skattsvik þeim tengd hafi verið framin. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þeir standi að þeim skattskilum í samræmi við gildandi réttarreglur. Bið ég þá fúslega velvirðingar á því hafi ég orðað skrif mín með þeim hætti að þau megi misskilja að þessu leyti.

Tilgangurinn  með pistli mínum var að vekja athygli á skattaþætti viðskipta af þessum toga ekki síst hlutverki seljandans, ábyrgð hans á því að gera kaupendum grein fyrir gildandi skattareglum og skyldum hans sjálfs svo sem hvað staðgreiðslu varðar. Fjölmörg dæmi eru um mál af þessu tagi, m.a. mál sem forverar seljandans voru aðilar að. Voru því hæg heimantökin að kanna þau og eftir atvikum að leita leiðsagnar skattyfirvalda í álitamálum sem vissulega geta verið til staðar svo sem um “rétt” markaðsverð á þeim tíma sem kaupin fara fram og áhrif sérstakra skilmála sem kaupunum fylgdi á það. Vera kann að slíkt hafi verið gert og er þá vel.

Örláti söngvarinn

Kern_Arion_auf_dem_DelphinSala Arionbanka á hlutabréfum í Símanum vekur athygli og spurningu um hvort hún sé merki um endurkomu fjármálasukks fyrri ára þegar ráðamenn fjármálafyrirtækja notuðu aðstöðu sína til að moka fé í vasa sína og vildarvina sinna með ýmsum hætti. Gleymdir eru gjörningar sem leiddu til áfellisdóma enda almennt talið að græðgi slævi skjótt minni þeirra sem ráða ríkjum á fjármálamarkaði.
Vera má að eigendum Arionbanka þyki það góð fjárfesting að kaupa sér vild áhrifaaðila í íslensku viðskiptalífi því æ sér gjöf til gjalda. Af fréttum fjölmiðla má ráða að verðmæti gjafarinnar sé um 720 m.kr.
Það eru ekki bara vildarvinir Arions sem geta glaðst yfir góðri gjöf. Aumur ríkissjóður og fjárvana sveitarsjóðir mega eiga von á hressingu því ekki verður betur séð en að þessi gjöf, þ.e. mismunurinn á kaupverði og markaðsverði hlutabréfanna, sé tekjur hjá kaupendunum, sem skattleggja eigi sem almennar tekjur. Tekjuskattur af þeim reiknast væntanlega í flestum tilvikum eftir hæsta skattþrepi. Má því ætla að tekjur ríkis og sveitarfélaga af þessum gjöfum verði um 300 m.kr. Þær ættu að skila sér á næstunni því hinn örláti Arion skilar væntanlega staðgreiðslu af gjöfum sínum við fyrsta tækifæri eins og lög gera ráð fyrir.

Andvana kanína

Í “útspili” ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga er greint frá fyrirhuguðum breytingum í skattamálum. Eins og búast mátti við var það venjuleg dúsa, þ.e. lækkun á tekjuskattsprósentu. Áhrif skattabreytinga eru margræð og oft önnur en látið í veðri vaka.

Í grein á vefsíðu minni með þessu nafni Andvana kanína er fjallað um þessar breytingar með þessum lokaorðum:

Undirrót óánægju í þjóðfélaginu er m.a. ójöfnuður í skiptingu eigna og tekna. Hlutur launatekna í landsframleiðslu hefur farið minnkandi síðustu ár. Hluti af þeirri þróun er sú staðreynd að vaxandi arði af auðlindum þjóðarinnar er beint fram hjá sameiginlegum sjóði landsmanna. Þetta er öllum ljóst. Stjórnvöld voru í þeirri stöðu að geta haft áhrif á gerð kjarasamninga með því að boða stefnubreytingu í þessu efni og ákveða aðgerðir á næstu misserum sem hefðu getað fært margfalt fleiri tugi milljarða í vasa ríkissjóðs og almennings en gert er með þeirri hungurlús sem nú er borin á borð. Með henni reyna stjórnvöld enn einu sinni að draga kanínu úr töfrahatti teboðsins en gæta þess ekki að hún er andvana.

Kakan og kjörin A

Í tilefni af 1. maí og yfirstandandi kjaradeilum setti ég í greinasafnið á vefsíðu minni fyrri hluta greinar um villandi orðræðu um launamál, skiptingu þjóðartekna og misskiptingu auðs og tekna með þessum lokaorðum:

Til viðbótar við 50 – 70 milljarða króna aukna hlutdeild í skiptingu þjóðartekna hafi tekju- og eignahæstu hópar í þjóðfélaginu fengið ívilnanir hjá stjórnvöldum á síðustu árum sem hafa aukið ráðstöfunartekjur þeirra um varla minna en 40 – 50 milljarða króna. Aðrir í samfélaginu hafa þannig farið á mis við tekjur og tekið á sig auknar byrðar í formi lægri launa, hærri skattbyrði og lélegri samfélagsþjónustu en ella hefði verið. Það er ekki undrunarefni að ófriðlega horfi á vinnumarkaði. Sérhagsmunaöflin virðast staðföst í því að halda fengnum hlut og setja sig gegn breytingu sem rétt geta hlut almenings. Á vettvangi stjórnmálanna hefur verið slegið skjaldborg um þá sem fénýta auðlindir þjóðarinnar í eigin þágu og ívilnanir veittar hátekjuhópunum.

Grundvallarbreytinga er þörf
Það er ekki líklegt að þessari stöðu verði snúið til betri vegar við samningaborðið. Það þarf einnig meira til en hefðbundið krukk í tekjuskattskerfið eða kanínur úr töfrahatti húsnæðismálaráðherra. Það sem þarf eru pólitísk úrræði sem taka á undirliggjandi þróun til aukins ójafnaðar, stöðvar hana og gera það að verkum að almenningur í landinu fái notið þeirra verðmæta sem verða til hér á landi, beint í starfskjörum sínum eða með því að þau standi undir sameiginlegum útgjöldum.

Greinin er hér: Kakan og kjörin A

Veiðigjöld 2015

Von mun á nýju frumvarpi um veiðigjöld. Má búast við að það verði framhald á þeim ferli að lækka veiðigjöldin og afnema þau sem tæki til að tryggja þjóðinni arð af fiskveiðiauðlindinni. Til stendur að afnema sérstaka veiðigjaldið sem byggt var á umframarði í greininni. Öll tengsl við auðlindaarðinn yrðu þannig afnumin og eftir stæði gjald til að jafna á greinina opinberum kostnaði við fiskveiðistjórnunarkerfið og öðrum kostnaði sem tengjast sjávarútvegi. Löng reynsla er fyrir því að slíkt gjald verður lágt enda ákveðið í samkomulagi við útgerðaraðalinn. Full ástæða er til þess að fylgjast vel með þessu máli. Talsmenn stjórnarflokkanna (eða að minnsta kosti annars þeirra) hafa haft uppi stór orð um að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar.  Nú reynir á það hvort slík orð eru innantómur frasi í munni þeirra eða hvort þau hafa raunverulegt inntak þess efnis að eign á auðlindum fylgi réttur til arðs af eigninni. Umframarður í sjávarútvegi, þ.e. hagnaður umfram allan tilkostnað að meðtöldum stofn- og fjármagnskostnaði hefur verið margir tugir milljarða á ári í mörg undanfarin ár. Þessi arður er eign þjóðarinnar. Greinar sem ég skrifaði á árunum 2013 og 2014 um fyrri skref á þessum ferli er að finna á vefsíðu minni indridih.com undir síðunni Auðlindir.