Hugrakkir riddarar og orrustur þeirra

Forseta Ísland er nú boðið að leika hlutverk hins hugprúða riddara af la Mancha í orrustu gegn vindmyllu. Er vitnað til framgöngu forvera hans í því hlutverki fyrir tæpum áratug sem lengdi lífdaga hans í embætti og sló um tíma bjarma á hnignandi frægðarsól.

Með framgöngu sinni lagði hann að velli illa Icesave samninga. Samkvæmt þeim átti þrotabú Landsbanka Íslands að greiða enskum og hollenskum sparifjareigendum allar tryggðar innstæður auk þess að greiða vexti til þeirra sem lögðu til fjármagnið.

Þökk sé hetjulegri framgöngu voru samnigar ekki gerðir en engu að síður greiddi þrotabú Landsbanka Íslands enskum og hollenskum sparifjareigendum allar tryggðar innstæður þeirra. Auk þess greiddi þrotabúið og fjármálaráðuneytið 53,5 milljarða til þeirra sem lögðu til fjármagnið.

Glæstur árangur af orrustu við vindmyllu. Er hlutverk hins hugprúða riddara í þeirri sem yfir stendur ekki nægilega vel skipað?

Skattapólitík og kjarasamningar

Kynnt hafa verið viðbrögð ríkisstjórnarinnar við óskum verkalýðshreyfingarinnar um réttlátara skattkerfi. Enginn átti von á að orðið yrði að fullu við óskum hreyfingarinnar en fáir hafa líklega gert ráð fyrir jafn snautlegu svari og raun varð á. Það dapurlegasta er að stjórnvöld virðist hafa misskilið óskir verkalýðshreyfingarinnar. Hún var ekki að biðja um ölmusu, uppbót á það sem falla kann af samningsborðinu, heldur endurdreifingu kostnaðarins af því að reka hér sæmilega siðað samfélag, óskir um skattkerfi sem byggt yrði á sanngirni og réttlæti.

sjá hér:

https://indridih.com/skattar-almennt/skattapolitik-og-kjarasamningar/

 

Kjarasamnngar, skattar og velferð

Það er ekki nýtt að breytingar á sköttum séu gerðar að umræðuefni og eftir atvikum hluti af kjarasamningum með svokölluðu þríhliða samkomulagi ríkisvaldsins, stéttarfélaga og vinnuveitenda. Yfirleitt eru þessir samningar gerðir undir því yfirskyni að þeir eigi að jafna kjörin, færa hinum verst settu mestar bætur og treysta stöðu þeirra sem standa höllum fæti. Það er hins vegar aldrei spurt að leikslokum og því hverju slíkir samningar hafa skilað einkum þegar litið er til langs tíma. Þróun kjara og skatta síðustu áratugi bendir ekki til þess að þessi vinnubrögð hafi skilað miklum árangri fyrir láglaunafólk þann markhóp sem átti að hagnast mest. Launamunur í samfélaginu hefur vaxið og kjaraleg staða láglaunafólks hefur síst farið batnandi. Skattbyrði láglaunafólks hefur vaxið meira en hjá öðrum á sama tíma og hún hefur verið lækkuð hjá hinum best settu bæði með beinum aðgerðum og auknum möguleikum til skattahliðrunar. …

….

Viðræður fulltrúa launþegahreyfingarinnar við stjórnvöld um þessi atriði og önnur hagsmunamál eins og húsnæðismál eru af hinu góða og eru tækifæri til að koma sjónarmiðum og kröfum hennar á framfæri. Þær eiga hins vegar ekki að hafa að markmiði að gera samkomulag um tilteknar breytingar eða aðgerðir. Slíkt er hvorki í samræmi við lýðræðislega stöðu samtakanna né hagsmuni félagsmanna. Þau eiga hins vegar að krefjast þess að afstaða stjórnvalda í þessum málum liggi skýrt fyrir áður en gengið er til samninga við vinnuveitendur um meginefni kjarasamninga þannig að þau geti hagað kröfugerð sinni og aðgerðum í samræmi við þekktar og fyrirliggjandi forsendur í þessum málum.

Greinin í heild: Kjarasamningar, skattar og velferð

Skattfrelsi ökuþóra

Í umræðu um akstursgreiðslur til þingmanna hefur þeim rökum verið beitt að að ekki sé við neinn að sakast því greiðslur þessar séu í samræmi við reglur. Á það m.a. við um meint skattfrelsi þessara greiðslna því í lögum um um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað segir: Greiðsla þingfararkostnaðar skv. 6. og 7. gr. er framtalsskyld, … en ekki skattskyld. Þær lagagreinar sem vísað er til fjalla um þann kostnað sem verið hefur tanna á milli í umræðunni, húsnæðis- og dvalarkostnað og ferðakostnað. Þessi regla er frávik frá skattalögum.

Skattfrelsi ökuþóra

Lögmál Wagners og Vinstri grænir

Otto von Bismarck, Wilhjálmur keisari og Adolf Wagner

Það er eilítið kaldhæðnislegt að upphaf almannatrygginga má rekja til Otto von Bismarck kaldrifjaðs kanslara Wilhjálms I keisara sem fékk hann til að senda þinginu þessi skilaboð 1881: Vinna þarf bug á félagslegu óréttlæti …. með því að bæta velferð verkalýðsins. Þrátt fyrir árásir hægri manna sem sökuðu hann um vinstrivillu hélt hann sínu striki. Þið getið kallað þetta sósíalisma eða hvað sem þið viljið. Það skiptir mig engu máli. Við lok áratugarins hafði fyrstu almannatryggingakerfi heims litið dagsins ljós í Þýskalandi.

Lögmál Wagners og Vinstri grænir

Silfurþáttur SA

Silfurþáttur SA

Ýmsum var brugðið þegar framkvæmdastjóri SA, í drottningarviðtali í Silfrinu, romsar upp athugasemdalaust staðleysum sem hann hafði áður birt í Morgunblaðinu og étur upp ýmsar þær bábiljur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið á borð í kosningabaráttunni. Þessi viðbrögð manna við þættinum koma ekki á óvart. En rétt er að hafa í huga að sú ritstjórnarstefna Silfursins að vera vettvangur mismunandi skoðana og viðhorfa er virðingarverð og nauðsynleg fyrir þjóðmálaþátt. Sú spurning vaknar þó hvort það flokkist undir umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra eða hlutleysi að leyfa pólitískum erindreka í dulargerfi flytja áróðursræðu án þess að vera spurður gagnrýninna spurninga sem augljóslega var full þörf á, einkum vegna þess að tími hefði gefist til að undirbúa þær. Umræðuefnið var jöfnuður á Íslandi og til einræðu um það var af öllum mönnum valinn talsmaður samtaka þar sem auðmenn landsins ráða ríkjum og berjast á pólitískum vettvangi fyrir sérhagsmunum sínum.

……………

Grýla hans um væntanlegan flótta auðmanna úr landi er gamalkunn og ástæðulaust að óttast hana. Tekjusköpun fer ekki fram með höndum þeirra sem sitja einhvers staðar með sín hlutabréf og hirða arðinn heldur í fyrirtækjunum sem starfa hér á landi og þau eru ekkert á förum hvort sem um er að ræða sjávarútveg, fjármálastarfsemi eða skúringar. Það gildir litlu hvar eigendurnir kjósa að skrá heimili sitt og hafa þeir ýmsir hvort sem er þegar flutt það til annarra landa til að forðast skattlagningu eða fela raunverulegt eignarhald. Það væri kannske bara hreinsun að losna við þá aðila sem hvorki vilja borga hér skatt né taka þátt í atvinnustarfsemi með opnum hætti en krefjast hér réttinda og áhrifa.

 

Að hækka til að lækka – listin að lækka skatta –

Að hækka til að lækka – listin að lækka skatta –

(Talnaefni sem byggt er á: ( sk 2005 – 2017 )

Auglýsingar geta verið spaugilegar. Ein slík frá Múrbúðinni sýndi markaðsmann leiðbeina henni á þann veg að hækka hjá sér verð og setja vörunua svo á útsölu á fyrra verði. Þessi ráð féllu í grýttan jarðveg og var ráðgjafanum sparkað út. Hvers vegna að hækka til að lækka.

…….

Fyrir þessa orðræðu eru framangreindar tölur afar áhugaverðar. Það sýnir sig sem sé að á stjórnarárum “skattalækkanaflokkanna” fyrir og eftir hrun hækkuðu skattar meira og náðu hærri hæðum en þeir gerðu á endurreisnartímanum þegar nauðsyn steðjaði að. Sú ríkisstjórn, sem þá sat, reyndist ekki hálfdrættingur þeirrar ríkisstjórna, sem stýrðu landinu inn í hrunið, og hafa baðað sig í velgengni sem lögð var upp í hendur hennar eftir það.

Múrbúðin vildi ekki blekkja með því “að hækka til að lækka” en það vilja aðrir gera. Lætur þjóðin blekkjast?

Ársreikningar Panama-félaga

 

Haustið er milt og snjór sést varla á fjöllum en fljótt virðist fenna yfir sporin sem Panamaskjölin afhjúpuðu á vormánuðum. Kannski er um að kenna vanmætti fjölmiðla til að fylgja málum eftir eða e.t.v. skorti á vitneskju um hvernig framvinda mála er þegar upp kemur efi um hvort rétt hafi verið staðið að málum. …

Ársreikningar Panama-félaga

Uppgjörið vegna Icesave

Uppgjörið vegna Icesave

 

Bretar og Hollendingar fengu 53,5 milljörðum meira frá LBI og TIFF en þeir greiddu innistæðueigendum

 

I Samandregnar niðurstöður

Greiðslur frá Íslandi í gjaldeyri vegna tryggðra innistæðna í útibúum LBI í Bretlandi og Hollandi voru um 53,5 milljarðar íslenskra króna umfram þann höfuðstól sem Bretar og Hollendingar yfirtóku.

Forgangskröfur voru að mestu leyti innistæður á sparireikningum útibúanna í Bretlandi og Hollandi í erlendum gjaldeyri. Alls voru þær 1.328 milljarðar krónur á gengi slitadags 22. apríl 2009. Búið greiddi kröfuhöfum þá fjárhæð af eignum sínum í erlendum gjaldeyri á hverjum tíma. Vegna hærra gengis íslensku krónunnar á greiðsludögum en á kröfudegi urðu greiðslur til kröfuhafa hærri en samþykktar kröfur þeirra í gjaldeyri höfðu verið og nam gengishagnaður þeirra og gengistap þrotabúsins um 55 milljörðum króna.

Hluti uppgjörsins voru þær innistæður á Icesave sparireikningum á fjórða hundruð þúsunda einstaklinga í Bretlandi og Hollandi, sem voru undir hámarki innistæðutrygginga á EES svæðinu og voru viðfangsefni Icesave deilunnar. Bretar leystu til sín tryggðar innistæður að fjárhæð 2.340 milljónir sterlingspunda og Hollendingar leystu til sín tryggðar innistæður fyrir 1.322 milljónir evra.

Slitabú LBI greiddi Bretum allar tryggðar innistæður sem þeir leystu til sín og 63 milljónir punda umfram höfuðstól þeirra. Hollendingum greiddi slitabúið allar tryggðar innistæður sem þeir leystu til sín og 156 milljón evrur umfram höfuðstól þeirra. Á gengi lokagreiðsludags voru greiðslur slitabúsins til Breta og Hollendinga samtals um 33 milljarðar króna umfram höfuðstólinn.

TIFF, íslenski innistæðutryggingasjóðurinn, greiddi Bretum um 68 milljón punda til viðbótar við greiðslur slitabúsins. Að greiðslum frá TIFF meðtöldum urðu greiðslur til Breta vegna tryggðu Icesave reikninganna 131 milljónum punda eða 24,7 milljörðum íslenskra króna hærri en höfuðstóll slíkra innistæðna sem þeir yfirtóku.

TIFF, íslenski innistæðutryggingasjóðurinn, greiddi Hollendingum um 46 milljón evra til viðbótar við greiðslur slitabúsins. Að greiðslum frá TIFF urðu greiðslur til Hollendinga vegna tryggðu Icesave reikninganna 203 milljónum evra eða 28,8 milljörðum íslenskra króna hærri en höfuðstóll slíkra innistæðna sem þeir yfirtóku.

Heiðursborgarar á Tortóla

Meinsemd skattaskjóla er alþekkt og ætti að vera flestum kunn eftir afhjúpun Panama-skjalanna. Skattaskjólin eru:

  • Vettvangur skattsvika af stærðargráðu sem er óskiljanleg fyrir venjulegt fólk.
  • Vettvangur þeirra sem fría sig frá skyldum við það samfélag sem hefur fóstrað þá og alið.
  • Vettvangur þar sem ágóði af hvers kyns glæpastarfsemi og öðru illa fengnu fé er blandað í leynisjóði stórfyrirtækja og auðkýfinga og hvítþvegið.
  • Vettvangur sem alþjóðafyrirtæki nota til að færa hagnað sinn út úr þeim löndum þar sem hann varð til og ætti að skattleggjast.
  • Vettvangur  þar sem leynd verndar þau viðskipti sem ekki þola dagsins ljós.
  • Vettvangur sem gerir sumum mögulegt að losna undan þeim lögum sem gilda fyrir aðra í heimalandinu og flestum siðuðum ríkjum.

Reynslan af alþjóðlegum fjármálabólum og hruni hefur sýnt að skattaskjólin eru óheillavaldar. Þau eru meinvarp í alþjóðahagkerfinu, ógnun við fjárhag einstakra ríkja og gróðrarstía spillingar. Hrunið til viðbótar við fyrri reynslu leiddi til þess að fjölþjóðasamtök settu stóreflda baráttu gegn skattaskjólum á stefnuskrá sína með það að markmiði að útrýma þeim. Afhjúpun Panama-skjalanna hefur gefið þeirri baráttu aukin byr í seglin. Krafa almennings í flestum ríkjum og yfirlýsingar ráðamanna í þeim er skýr stuðningur við þessa stefnu.

Ísland er aðili að sumum þessara stofnana t.d. OECD, sem staðið hefur framalega í baráttunni. Það kemur því verulega á óvart að fyrstu yfirlýsingar endurnýttra ráðamanna eftir að fyrri leiðtogi þeirra verður að víkja vegna starfsemi í skattaskjóli skuli vera þess efnis að það sé í lagi að eiga fé í skattaskjóli. Forystumenn flestra ríkja krefjast þess nú að nákvæm rannsókn fari fram á þeim sem uppvísir hafa orðið að leynibraski. Íslenskir valdhafar telja að kattarþvottur með óljósum og ósönnuðum yfirlýsingum sé nægilegur til að áfram verði haldið að blekkja almenning og skaða þjóðina.

Það er ekki ónýtt fyrir skattaskjólin og viðskiptafélaga þeirra að fá þannig siðferðisvottorð frá ríki sem státar sig (með réttu eða röngu) af því að vera elsta lýðræðisríki heims og (líka með réttu eða röngu) að vera meðal þeirra ríkja þar sem mannréttindi, jafnrétti og velferð allra þegna samfélagsins eru grundvallarmál. Þetta siðferðisvottorð ráðmanna er enn furðulegra í ljósi þess:

  • Að Ísland verður fyrir tilstuðlan skattaskjóla árlega af skatttekjum sem að lágmarki eru 30 – 50 milljarðar króna.
  • Að tugum milljarða af hagnaði af nýtingu á orkuauðlindum landsins er komið undan skattlagningu með atbeina skattaskjóla.
  • Að verulegur hluti arðs af fiskveiðiauðlindinni kann einnig að vera vistaður í skattaskjólum.
  • Að í aðdraganda hrunsins voru hundruðir milljarða króna sogaðir út úr íslenska hagkerfinu inn í einkahlutafélög Íslendinga í skattaskjólum.
  • Að hluti Íslendinga, sem hefur til þess aðstöðu, getu og geð, segir sig undan íslenskum lögum og athafnar sig utan þess réttarkerfis sem vestræn samfélög hafa sett atvinnurekstri.
  • Að hluti Íslendinga hefur með því að vista eigur sínar í skattaskjólum komið sér undan afleiðingum hrunsins og jafnvel hagnast á óförum annarra.

Það undarlegasta er þó að þeir sem svona tala eru valdir til æðstu metorða á Íslandi í stað þess að vera gerðir að heiðursborgurum á Tortóla.