Uppgjörið vegna Icesave

Uppgjörið vegna Icesave

 

Bretar og Hollendingar fengu 53,5 milljörðum meira frá LBI og TIFF en þeir greiddu innistæðueigendum

 

I Samandregnar niðurstöður

Greiðslur frá Íslandi í gjaldeyri vegna tryggðra innistæðna í útibúum LBI í Bretlandi og Hollandi voru um 53,5 milljarðar íslenskra króna umfram þann höfuðstól sem Bretar og Hollendingar yfirtóku.

Forgangskröfur voru að mestu leyti innistæður á sparireikningum útibúanna í Bretlandi og Hollandi í erlendum gjaldeyri. Alls voru þær 1.328 milljarðar krónur á gengi slitadags 22. apríl 2009. Búið greiddi kröfuhöfum þá fjárhæð af eignum sínum í erlendum gjaldeyri á hverjum tíma. Vegna hærra gengis íslensku krónunnar á greiðsludögum en á kröfudegi urðu greiðslur til kröfuhafa hærri en samþykktar kröfur þeirra í gjaldeyri höfðu verið og nam gengishagnaður þeirra og gengistap þrotabúsins um 55 milljörðum króna.

Hluti uppgjörsins voru þær innistæður á Icesave sparireikningum á fjórða hundruð þúsunda einstaklinga í Bretlandi og Hollandi, sem voru undir hámarki innistæðutrygginga á EES svæðinu og voru viðfangsefni Icesave deilunnar. Bretar leystu til sín tryggðar innistæður að fjárhæð 2.340 milljónir sterlingspunda og Hollendingar leystu til sín tryggðar innistæður fyrir 1.322 milljónir evra.

Slitabú LBI greiddi Bretum allar tryggðar innistæður sem þeir leystu til sín og 63 milljónir punda umfram höfuðstól þeirra. Hollendingum greiddi slitabúið allar tryggðar innistæður sem þeir leystu til sín og 156 milljón evrur umfram höfuðstól þeirra. Á gengi lokagreiðsludags voru greiðslur slitabúsins til Breta og Hollendinga samtals um 33 milljarðar króna umfram höfuðstólinn.

TIFF, íslenski innistæðutryggingasjóðurinn, greiddi Bretum um 68 milljón punda til viðbótar við greiðslur slitabúsins. Að greiðslum frá TIFF meðtöldum urðu greiðslur til Breta vegna tryggðu Icesave reikninganna 131 milljónum punda eða 24,7 milljörðum íslenskra króna hærri en höfuðstóll slíkra innistæðna sem þeir yfirtóku.

TIFF, íslenski innistæðutryggingasjóðurinn, greiddi Hollendingum um 46 milljón evra til viðbótar við greiðslur slitabúsins. Að greiðslum frá TIFF urðu greiðslur til Hollendinga vegna tryggðu Icesave reikninganna 203 milljónum evra eða 28,8 milljörðum íslenskra króna hærri en höfuðstóll slíkra innistæðna sem þeir yfirtóku.

Verharmlosung

Greinarstúfur um orðræðuna og sakleysið. Birtist í Kjarnanum 12. 4. 2016.

Kannske veldur kunnáttuskortur því að ég finn ekki gott íslenskt orð yfir þýska orðið “Verharmlosung” eða sagnorðið “verharmlosen”, sem það er dregið af. Merkingin er að láta eitthvað líta sakleysislega út þótt það sé það ekki í reynd. Það er gert á margvíslegan hátt t.d. með því að kalla hlutina sakleysislegum nöfnum, nota orð með óljósri merkingu, nota merkingarlausa orðaleppa, snúa út úr merkingu orða eða með öðrum orðhengilshætti. Í orrahríð síðustu daga má sjá margar tilraunir í þessa veru.

Algengasta dæmið er líklega orðskrípið “utanumhald” og orðasambandið “að halda utan um eiithvað.” Þannig lesum við að félög hafi verið stofnuð til að “halda utan um” peninga, sjóði, íbúðir eða fasteignir o.fl. Það kveikir mynd af góðlegri konu á sólríkri strönd með nokkra dollara í hendinni eða af húskarli að dytta að kofa eigandans. …………  frh.  Verharmlosung

Heiðursborgarar á Tortóla

Meinsemd skattaskjóla er alþekkt og ætti að vera flestum kunn eftir afhjúpun Panama-skjalanna. Skattaskjólin eru:

  • Vettvangur skattsvika af stærðargráðu sem er óskiljanleg fyrir venjulegt fólk.
  • Vettvangur þeirra sem fría sig frá skyldum við það samfélag sem hefur fóstrað þá og alið.
  • Vettvangur þar sem ágóði af hvers kyns glæpastarfsemi og öðru illa fengnu fé er blandað í leynisjóði stórfyrirtækja og auðkýfinga og hvítþvegið.
  • Vettvangur sem alþjóðafyrirtæki nota til að færa hagnað sinn út úr þeim löndum þar sem hann varð til og ætti að skattleggjast.
  • Vettvangur  þar sem leynd verndar þau viðskipti sem ekki þola dagsins ljós.
  • Vettvangur sem gerir sumum mögulegt að losna undan þeim lögum sem gilda fyrir aðra í heimalandinu og flestum siðuðum ríkjum.

Reynslan af alþjóðlegum fjármálabólum og hruni hefur sýnt að skattaskjólin eru óheillavaldar. Þau eru meinvarp í alþjóðahagkerfinu, ógnun við fjárhag einstakra ríkja og gróðrarstía spillingar. Hrunið til viðbótar við fyrri reynslu leiddi til þess að fjölþjóðasamtök settu stóreflda baráttu gegn skattaskjólum á stefnuskrá sína með það að markmiði að útrýma þeim. Afhjúpun Panama-skjalanna hefur gefið þeirri baráttu aukin byr í seglin. Krafa almennings í flestum ríkjum og yfirlýsingar ráðamanna í þeim er skýr stuðningur við þessa stefnu.

Ísland er aðili að sumum þessara stofnana t.d. OECD, sem staðið hefur framalega í baráttunni. Það kemur því verulega á óvart að fyrstu yfirlýsingar endurnýttra ráðamanna eftir að fyrri leiðtogi þeirra verður að víkja vegna starfsemi í skattaskjóli skuli vera þess efnis að það sé í lagi að eiga fé í skattaskjóli. Forystumenn flestra ríkja krefjast þess nú að nákvæm rannsókn fari fram á þeim sem uppvísir hafa orðið að leynibraski. Íslenskir valdhafar telja að kattarþvottur með óljósum og ósönnuðum yfirlýsingum sé nægilegur til að áfram verði haldið að blekkja almenning og skaða þjóðina.

Það er ekki ónýtt fyrir skattaskjólin og viðskiptafélaga þeirra að fá þannig siðferðisvottorð frá ríki sem státar sig (með réttu eða röngu) af því að vera elsta lýðræðisríki heims og (líka með réttu eða röngu) að vera meðal þeirra ríkja þar sem mannréttindi, jafnrétti og velferð allra þegna samfélagsins eru grundvallarmál. Þetta siðferðisvottorð ráðmanna er enn furðulegra í ljósi þess:

  • Að Ísland verður fyrir tilstuðlan skattaskjóla árlega af skatttekjum sem að lágmarki eru 30 – 50 milljarðar króna.
  • Að tugum milljarða af hagnaði af nýtingu á orkuauðlindum landsins er komið undan skattlagningu með atbeina skattaskjóla.
  • Að verulegur hluti arðs af fiskveiðiauðlindinni kann einnig að vera vistaður í skattaskjólum.
  • Að í aðdraganda hrunsins voru hundruðir milljarða króna sogaðir út úr íslenska hagkerfinu inn í einkahlutafélög Íslendinga í skattaskjólum.
  • Að hluti Íslendinga, sem hefur til þess aðstöðu, getu og geð, segir sig undan íslenskum lögum og athafnar sig utan þess réttarkerfis sem vestræn samfélög hafa sett atvinnurekstri.
  • Að hluti Íslendinga hefur með því að vista eigur sínar í skattaskjólum komið sér undan afleiðingum hrunsins og jafnvel hagnast á óförum annarra.

Það undarlegasta er þó að þeir sem svona tala eru valdir til æðstu metorða á Íslandi í stað þess að vera gerðir að heiðursborgurum á Tortóla.

Óvinurinn

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Að ábendingu góðs manns, las ég það í grein á Pressunni eftir alþingismanninn Karl Garðarsson að ég væri “yfirlýst(ur)” andstæðingur Sigmundar Davíðs. Því fylgdi hann eftir með því að kalla mig og fleiri “bullandi hlutdrægt fólk” Engar vísbendingar voru þó um hvar meinta yfirlýsta andstöðu væri að finna eða vitnisburð um bullandi hlutdrægni.

Tilefni þessarar atlögu þingmannsins eru viðræður sem ég átti við dagskrárgerðarmann á rás 1 að morgni mánudagsins 21. mars um skattaskjól. Tilgangurinn virðist ekki að koma höggi á mig heldur verð ég fórnarlamb við smíði hans á kenningu um ofsóknaráráttuhegðun RUV gegn forsætisráðherra og Framsóknarflokknum. Glöggir hlustendur geta sannfært sig um það að í þessum viðræðum tók ég aldrei í munn mér nafn forsætisráðherra eða flokks hans og vék ekki orði að þeim atburðum sem hafa verið tilefni til mikillrar umræðu á síðustu dögum. Um viðmælanda minn Óðinn Jónsson er sama að segja. Hann beindi aldrei spurningum sínum eða tali að þeim atburðum, flokknum eða forsætisráðherra.

Nú má vel vera að þingmaðurinn trúi sjálfur á eigin ofsóknarkenningu. En hvernig hann getur tekið þetta viðtal sem dæmi til að sanna hana er óskiljanlegt. Enn síður fæ ég skilið þau rök hans að ég sé andstæðingur Sigmundar Davíðs. Sú fullyrðing er byggð á atriðum, sem sýna það eitt að pennanum var ekki stýrt af vitrænni hugsun skrifarans. Ég hef ekki lagt það í vana minn að draga menn í dilka og merkja einhverja þeirra sem andstæðinga eða óvini. Það á líka við um Sigmund Davíð. Ég hef aldrei litið á hann sem andstæðing sem þýðir þó ekki að ég sé honum ætíð sammála og enn síður að ég hafi gert hann að leiðtoga lífs míns. Áskil ég mér allan rétt til að gagnrýna eða styðja hans mál eftir atvikum hverju sinni.

Enn síður er vitrænt samhengið í því að bendla mig við óvináttu við Framsóknarflokkinn. Reyndar er það svo að ég get ekki þrætt fyrir að hafa einhvern tíma kosið þann flokk og móðir mín sáluga kaus Framsókn svo lengi sem ég veit. Gott fylgi Framsóknar meðal kvenna í minni sveit var stundum skýrt með því að frambjóðendur þess flokks hefðu haft meiri þokka til að bera en frambjóðendur Íhaldsins, sem faðir minn, tvímenningur við fyrsta formann Sjálfstæðisflokksins, taldi sér skylt að styðja. Hvað hann gerði allt til 1980 þegar hann, kominn á tíræðisaldur en vel ern og víðsýnni með aldrinum, lét heillast af Vigdísi Finnbogadóttur. Ég á sem sé rætur að jöfnu í Framsókn og Íhaldi og hef enga ástæðu til að líta á þá flokka sem óvini mína jafnvel þótt þeir hafi breyst frá þeim góðu gömlu tímum.

Ég verð að álíta að alþingismaðurinn hafi í einhverju ójafnvægi og athugunarleysi sett á blað þau orð um mig, sem fram koma í grein hans. Þar sem þau eru hvorki særandi né ærumeiðandi hirði ég ekki um að krefjast leiðréttingar eða afsökunar frá honum. Ef hann skyldi lesa þessi orð mín vil ég þó beina til hans þeim kurteislegu tilmælum að láta það vera í framtíðinni að gera mér upp skoðanir.

Paradísarmál

Cane_Garden_Bay,_TortolaFjárvarsla í paradís varð að stórmáli í fjölmiðlum og á Alþingi þar sem sótt er fast og fimlega varist. Í slíkum átökum er nauðsynlegt að gæta hófs. Í því hlýtur Kastljós að vera til fyrirmyndar. Það kallaði í gær á skattalögfræðing til að tjá sig um málið og til var fenginn maður, sem er þessum hnútum kunnugur hafandi  á gullárunum starfaði hjá Landsbanka Íslands m.a. að málefnum aflandsfélaga. Af hógværð var þeirrar starfsreynslu þó að engu getið og virðingin slík að engin gagnrýnin spurning var borin upp. Að öðru leyti var þátturinn helgaður ágætum manni, svissneskum, sem hafði m.a. unnið sér það til ágætis að vera í forsvari fyrir EFTA dómstólsinn við úrlausn máls sem í ljósi sögunnar hefur óverulega þýðingu. Það er lofsvert að stíga létt til jarðar, það truflar ekki.

Fjárvarsla í paradísum er ekki ný af nálinni. Hún blómstraði á árunum fyrir hrun og tók ég þá saman upplýsingar, sem ég birti í greinum á blog.is í febrúar og mars 2008 og sjá má með tenglunum:

Eignarhald á íslenskum fyrirtækjum …

Eignarhald á kauphallarfélögum

Útrás og innrás

Leyfarnar af skyndigróða þessa tíma hafa sjáanlega legið þar og dafnað eigendum sínum til ánægju og yndisauka eins og grein Inga Freys Vilhjálmssonar í Stundinni í dag ber með sér.

 

 

Auðlindarenta. Erindi á málþingi Pírata um umhverfismál 14. janúar 2016

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Á málþingi Pírata um umhverfismál 14. janúar sl. hélt ég stutt erindi um auðlindarentu. Auk mín fluttu þrír aðrir frummælendur stutt og fróðleg erindi um umhverfismál frá ýmsum sjónarhornum. Fundurinn tókst með ágætum, var upplýsandi og umræður ágætar.

Erindi mitt og efni þess var byggt á fyrirlestri sem ég hélt á umhverfisþingi um náttúruauðlindir Íslands sem haldið var 11. apríl 2015. Skyggnur þær sem ég notaði á málþingi Pírata má finna hér: Auðlindarenta. Erindi á málfundi Pírata. og erindið frá málþinginu er hér: Arður af náttúruauðlindum og hver nýtur hans?

Að hafa tungur tvær

Frumgjöld bSmá grein um ríkisfjármál á heimasíðu minni með þessu upphafi og lokum.

Fyrir nokkru lögðu stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi fram sameiginlegar tillögur til breytinga á frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016. Að sjálfsögðu var þeim ekki vel tekið af stjórnaflokkunum og reynt að stimpla þær sem ábyrgðarlaust yfirboð. Slíkt er vitaskuld ekki óþekkt við afgreiðslu fjárlaga. En var verið að yfirbjóða og í hverju fólgst ábyrgðarleysið? ………….

…………..Það jaðrar hins vegar við heimsku að halda að það sé hægt að gera slíkt og hækka um leið útgjöld til allra helstu útgjaldsflokka, heilbrigðismála, mála aldraðara og öryrkja, skólamála o.s.fr eins og reynt er að halda fram að verið sé að gera í þeirri umræðum um fjárlög sem stendur yfir. Hugsanlega þekkja hinar háværu málpípur stjórnarinnar í ríkisfjármálum ekki hina raunverulegu stefnu í þeim efnum. Mættu húsbændurnir uppfræða þá betur um hana en e.t.v. þykir þeim bara gott að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.

Að hafa tungur tvær

Óvissuferð án fyrirheits

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Á fundi í Félagi íslenskra leiðsögumanna fyrir skömmu voru Vegvísir ferðaþjónustu og Stjórnstöð ferðamála til kynningar. Vegvísirinn er glæsilegur álitum. Hann var í takmörkuðu upplagi, 4 eintök fyrir 50 – 60 manna fund. Efnið, sem rúmast getur á 4 -6 bls., er fagurlega teygt yfir 24 síður á þykkan glanspappír þar sem sexhyrndir verkefnakassar minna á íslenska stuðlabergið.

Í pistli á heimasíðu minni fjalla ég lítið eitt um efnið sem kynnt var á fundinum.

Óvissuferð án fyrirheits

Engin skattsvik (Enn um örlátan söngvara)

William-Adolphe_Bouguereau_(1825-1905)_-_Arion_on_a_Sea_Horse_(1855)Mér hefur borist til eyrna að pistill sem ég ritaði hér árla dags hafi verið túlkaður á þann veg að framin hafi verið skattsvik. Sú túlkun er fjarri öllu sanni. Ekkert í honum er þess efnis og ekkert tilefni til að ætla að skattalög hafi verið brotin. Skattskil kaupenda vegna tekna á þessu ári og þar með þessara viðskipta fer ekki fram fyrr en á næsta ári. Þegar af þeirri ástæðu er ómöguleiki á að skattsvik þeim tengd hafi verið framin. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þeir standi að þeim skattskilum í samræmi við gildandi réttarreglur. Bið ég þá fúslega velvirðingar á því hafi ég orðað skrif mín með þeim hætti að þau megi misskilja að þessu leyti.

Tilgangurinn  með pistli mínum var að vekja athygli á skattaþætti viðskipta af þessum toga ekki síst hlutverki seljandans, ábyrgð hans á því að gera kaupendum grein fyrir gildandi skattareglum og skyldum hans sjálfs svo sem hvað staðgreiðslu varðar. Fjölmörg dæmi eru um mál af þessu tagi, m.a. mál sem forverar seljandans voru aðilar að. Voru því hæg heimantökin að kanna þau og eftir atvikum að leita leiðsagnar skattyfirvalda í álitamálum sem vissulega geta verið til staðar svo sem um “rétt” markaðsverð á þeim tíma sem kaupin fara fram og áhrif sérstakra skilmála sem kaupunum fylgdi á það. Vera kann að slíkt hafi verið gert og er þá vel.